Gíbraltar, story of my life ;-)

Síðastliðið sumar bauð vinkona mín mér til Gíbraltar til að hjálpa henni með rekstur sem að hún er með.  W00t Þetta er í annað sinn sem að ég fer með henni og fjölskyldu hennar þangað suðureftir og alltaf jafn mikið ævintýri. Ég var mikið að hjálpa henni á kvöldin og snemma nætur. Það þurfti að setja upp hluti og rífa niður, þrífa og margt annað. Á daginn vorum við yfirleitt að útrétta eitthvað og ná í birgðir.

Þessi ferð síðasta ágúst var alveg mögnuð. Hrina óhappa og veikinda allra sem að voru þarna. Það voru náttúrulega rosaleg viðbrigði strax við komuna því að það er svo heitt þarna og ofboðslegur raki.....það tók oft rúman dag að þurrka einn hlýrabol og þú þværð ekki gallabuxur þarna án þess að eiga þurrkara annars skaltu búa þig undir það að það taki allavega 2 daga fyrir þær að þorna. Whistling

Aðeins 2 dögum eftir að það var opnað rek ég höfuðið alveg hryllilega í hornið á borðinu sem að ég sat við að það var eins og ég hafi verið slegin með hnúajárni í ennið. Það blæddi vel úr og kúla á stærð við appelsínu var komin undir eins. Ein voða skvísa vel til höfð útlítandi eins og systir Frankensteins, eða allavega eins og frænka hans. Kúlan var kæld niður með frosinni steik vöfð í plast sem að við fengum að láni á næsta veitingastað sem að var á svæðinu. Kúlan hefði örugglega orðið á stærð við melónu hefði ég ekki fengið steikina góðu.

Maturinn á Gíbraltar er ekki góður, svona eins og týpískur breta matur með sitt pudding og pies, beans on toast og jekk jekk.....ég gerði í því að fara bara á pizzu og pasta staðinn nálægt B&B þar sem að við gistum það var nú samt hægt að finna áhugaverða veitingastaði inná milli. En eitt skiptið fór stór partur á hópnum á einn veitingastað áður en haldið var til vinnu. Til að gera langt mál stutt, við vorum öll með hryllilega magaverki seinna um kvöldið.Sick

Þannig að þegar að aðeins eru liðnir 5 dagar er ég með þessa svakalegu kúlu og skurð á enninu sem að nú var orðin vel blá, illt í maganum og byrjuð að fá verki í herðablaðið, reyndar var það eitthvað byrjað að plaga mig áður en að ég hélt af stað til Gíbraltar. Enginn local persóna, sem að ekki þekkti forsögu kúlunnar, þorði að messa við mig sem að var svo sem ágætt þar sem að margur misjafn sauðurinn var þarna niðurfrá.

Nú nú....tveim dögum seinna, sem sagt dagur 7 og ég á leið niður á spítala. Kvöldið áður var alveg svakalegt.....verkurinn í herðablaðinu var nú orðinn stöðugur og farinn að leiða niður í lófann á mér. Svona seiðandi náladofi og doði á víxl...stundum var eins og að puttarnir á mér hlustuðu ekki á skilaboðin sem að heilinn sendi.  Þarna var ég þukluð, teygð og tosuð. Hélt læknirinn að ég væri með klemmdar taugar vegna mikillar vöðvabólgu. Út gekk ég frá lækninum með bleikustu töflur sem að ég hef á ævi minni séð. Ég er að tala um bleikt, já bleikt svona eins og hárið á Sollu Stirðu í Latabæ og þetta eru sko engar ýkjur!!! Eftir að ég kom heim þorði ég ekki að geyma þær heima hjá mér af ótta við að stelpurnar mundu á einhvern hátt ná í þær og hreinlega gleypa þær því að þær litu út alveg eins og bleikt mentos.Errm

Dagur 7 ég með kúlu og skurð á enninu, enn illt í maganum, hálf lömuð í hendinni, hélt að þetta gæti ekki orðið verra. Nei nei...enga bjartsýni. Dagur 9 og ég aftur á leið í apótekið. Eins og ég sagði þá var mikill raki í loftinu og svakalega heitt vegna vinda sem að eru kallaðir levante. Núna var ég komin með mikið kvef, hósta og hita. Æði....gat ekki verið betra. Sem sagt daginn áður en ég fór niður til Torremolinos að hvíla mig í 2 daga áður en ég átti að fljúga aftur heim þá var ástand mitt svona:

Með stóra bláa kúlu og rispu á höfðinu, ennþá viðkvæm í maganum, með óbærilega verki í herðablaðinu sem að leiddi niður handlegginn hjá mér, takandi bleikar töflur og berandi deyfikrem á svæðið, sem að virkaði ekki, komin með hor í nös, hósta og sýkingu í kinnholurnar, takandi sterasprey í nefið og penisillín vegna sýkingar. Crying

Vá hvað ég hlakkaði til að fá að slaka á í Torremolinos í 2 daga fyrir heimför. Planið var að liggja gjörsamlega flatmaga á ströndinni og gera nákvæmlega ekki neitt nema að borða og drekka sangriu. Viti menn ÞAÐ RINGDI !!!
Sangríuna skildi ég fá mér því að ég hafði lofað nágrannakonu minni það, skítt með öll lyf og kjaftæði það var ekkert að virka hvort eð er. Ég settist niður á næsta bar og bað ekki um glas af sangríu heldur heila könnu takk, ekkert minna, ég átti það svo sannarlega skilið.

Þessi ferð er eitthvað sem að ég mun aldrei gleyma og þrátt fyrir öll óhöppin og veikindin þá var hún bara æðisleg og mundi sko alveg vilja endurtaka leikinn með eða án alls þess sem að gerðist í þessari ferð. Þetta var frábær hópur sem að ég var með og kynntist alveg heilann helling af  æðislegu fólki. Vona bara að ég fái tækifæri á næsta ári að hitta þetta lið aftur og rifja upp með þeim. Það yrði bara gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband